Þegar rútínan hefst í janúar og kuldinn bítur inn að beini þarf stundum að leita dýpra eftir gleðinni. Myrkrið er mikið þrátt fyrir að það sé loks byrjað að birta aftur og jólaskrautið er farið að hverfa. Eftir kuldann síðustu daga fer nú að hlýna og spáin segir asahláka og stemningin eftir því.
Við mælum með hlýjum skóm og góðum úlpum. Klæddu þig vel svo veðrið bíti ekki jafn hart.
Finndu gleðina í litlu hlutunum, stundum getur heitt kakó eftir daginn gert kraftaverk. Heit sturta eða jafnvel heitt bað mýkir upp stirðan kropp og góð stemning í ræktinni getur gert kraftaverk. Við þurfum ekki alltaf að vera að velta fyrir okkur hvað kemur næst. Best er að leggja allt til hliðar þegar við mætum í ræktina, skilja vandamálin eftir fyrir utan og hvað við þurfum að klára næst.
Slökkva á heilanum, kveikja á kraftinum og láta slag standa.
Eftir góða æfingu er dópamínið í kroppnum í toppstandi og við getum dílað við allt hitt þegar við löbbum aftur út. Við verðum í betri gír fyrir það sem bíður okkar þegar við hugum að okkur sjálfum.
Gleðin í litlu hlutunum getur verið að við erum aðeins betri í kroppnum í dag en í gær, aðeins liðugri, komumst í dýpri hnébeygjur og náum að rétta betur úr höndunum. Viðmiðin þurfa ekki að vera stór, þau þurfa bara að vera okkar.
Njótum, verum góðar við hvor aðra og gleðjumst saman yfir að hafa í dag valið að taka okkur stund fyrir okkur sjálfar. Lífið á að snúast um að hafa gaman og njóta stundina.
Svo þegar asahlákan mætir, klæðum við okkur bara í vatnshelda skó og stöppum glaðar í pollunum. Ekkert bítur á þegar viðhorfið er bjart.
xoxo
Comments