top of page
Writer's pictureKvennastyrksteymið

Ræður æfingafélaginn ferðinni?


Að hafa æfingafélaga í ræktinni getur verið algjörlega frábært og oft á tíðum er það ástæðan fyrir því að við komumst af stað, vinur/vinkona dregur okkur á okkar fyrstu æfingu.

En þetta getur verið tvíeggja, stundum getum við orðið of háð félaganum og það þýðir að við teljum okkur trú um að við þurfum ekki að mæta af því félaginn mætir ekki, við segjum við okkur „æi þá nenni ég ekki að mæta“. Það getur líka verið þannig að þú mætir ekki af því félaginn mætir ekki en ef þú forfallast þá mætir félaginn samt.

Ef þú tengir við þetta þá skaltu setjast aðeins niður og fara yfir stöðuna. Félaginn er orðinn hækjan þín og ræktin í raun bara fyrir hana, þú nýtur félagsskaparins en hún er að mæta í ræktina til að vinna í sínum styrkleikum og veikleikum. Farðu yfir ferlið og skoðaðu hvernig þér líður eftir æfingu, hversu miklu sterkari þú ert orðin, hversu mikið þrekið hefur aukist og hversu góð andlega líðanin er eftir æfingu. Þetta er EKKI af því að félaginn var með þér á æfingu! Þetta er af því að þú lagðir inn vinnuna og þú tókst á því FYRIR ÞIG.

Losaðu þig við hækjuna, ég er ekki að tala um að losa þig við vinkonuna og hætta að mæta í ræktina með henni heldur að hætta að stóla á hana og halda þig við þína rútínu. Þín rútína skiptir máli fyrir þig og ef þú lendir í því að forfallast í ykkar ákveðna tíma en kemst á öðrum tíma dagsins láttu þá vinkonuna vita og bjóddu henni að koma með þá. Hugsaðu um þína heilsu og settu félagann í annað sæti. Njóttu þess að æfa með henni þegar þið getið en njóttu þess líka að æfa ein ef svo ber undir.

Ef þú aftur á móti tengir við þessi orð á þann hátt að þú áttar þig á því að þú ert hækjan, þú ert sú sem stjórnar ferðinni og þú ert ástæðan fyrir því að vinkona þín mæti sestu þá niður með henni og ýttu henni áfram. Ef hún kemst ekki á ykkar hefðbundnu æfingu hvettu hana þá til að fara seinna. Ef þú kemst ekki á æfinguna hvettu hana þá til að fara samt.

Njótum þess að æfa í góðum félagsskap þegar við getum en setjum okkur í fyrsta sæti og hættum að notast við hækjur, við berum ábyrgð á okkar eigin heilsu.

xoxo







21 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page