Í lok vikunnar er ágætt að horfa yfir dagana og hugsa aðeins hvað stóð upp úr í vikunni og hvað hefði mátt fara betur. Stóð ég undir væntingum vikunnar eða þarf ég ef til vill að endurstilla örlítið væntingarnar?
Oft á tíðum týnum við okkur í að ætla að gera allt. Sérstaklega núna rétt fyrir jólin. Fyrir jól ætluðum við að missa nokkur kíló, gera heimilið minimalískt, jólagjafirnar áttu að vera klárar í maí, baka átta sortir, hitta alla meira og almennt bara gera meira af öllu! En sólarhringurinn bara lengdist hins vegar ekki neitt. Kílóin skipta engu máli enda segja þau bara hálfa sögu, jólagjafirnar eiga ekki að kosta okkur sálina og lífsgleðina, kökurnar má kaupa tilbúnar eða jafnvel bara degið og ná þá samt fram smá bökunarilm í húsið og vinirnir verða örugglega á sínum stað í janúar.
Dragðu að þér andann djúpt, andaðu rólega frá þér og hugsaðu hvað þig langar að gera. Hvað þú raunverulega vilt klára og leyfðu öðru að slide-a. Ef jólagjafirnar fyrir börnin eru klár þá er lítið annað sem skiptir máli. Ekki yfirflækja hlutina og reyndu að klára sem mest á sama staðnum nú eða á netinu bara. Lífið er of stutt fyrir stress sem við þurfum ekki á að halda.
Handan við hornið er nýtt ár stútfullt af væntingum sem við ætlum að reyna að stilla í hóf, markmiðum sem við ætlum að hólfa niður í smærri raunhæf markmið og tækifærum sem við grípum með krafti.
Segjum já við geðheilsu og njótum jólanna á okkar eigin forsendum. Auðvitað er gaman að ná að „skvera“ heimilið aðeins af fyrir jólin en það er líka allt í lagi að fela draslið bara inn í skápum og þrífa það sem sést.
Jólin sem þú nærð að njóta með brosi á vör sem er ekki stirðnað af stressi eru einfaldlega ljúfari jól.
Njóttu og fáðu þér köku!
xoxo
Comments